Áhrif hjartaendurhæfingar HL-stöðvarinnar eftir kransæðahjáveituaðgerð eða annað kransæðainngrip

TitillÁhrif hjartaendurhæfingar HL-stöðvarinnar eftir kransæðahjáveituaðgerð eða annað kransæðainngrip
Form útgáfuTímaritsgrein
Útgáfuár2015
HöfundarFríða Dröfn Ammendrup, Mundína Ásdís Kristinsdóttir, Gunnar Guðmundsson, Erlingur Jóhannsson
TímaritLæknablaðið
Bindi101
Hefti11
Blaðsíðutal511–516
ISSN0254-1394
LykilorðEndurhæfing, Hjartaaðgerðir
Útdráttur

Ágrip

Inngangur: Hjartaendurhæfing er viðurkennd meðferð hjá sjúklingum með kransæðasjúkdóma en takmarkaðar upplýsingar eru til um hana á Íslandi. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort hjartaendurhæfing á stigi II í HL-stöðinni eftir kransæðahjáveituaðgerð eða kransæðavíkkun, skilaði bættri líkamlegri heilsu og betri lífsgæðum til sjúklinga.

Efniviður og aðferðir: Sjúklingar sem gengist höfðu undir inngrip vegna kransæðasjúkdóms var boðin þátttaka. Alls þáðu 64 boðið (af 65) en 48 luku þátttöku í rannsókninni. Að meðaltali mættu þátttakendur í 2,1 skipti á viku í 8,4 vikur. Mælingar gerðar: þrektala (W/kg), blóðþrýstings- og púlssvörun úr áreynsluprófi og líkamsþyngdarstuðull (kg/m2). Til að meta heilsutengd lífsgæði var notaður SF-36v2 lífsgæðakvarðinn.

Niðurstöður: Þrek batnaði um 14,4% (p<0,001) og 6,1% aukning varð á hámarkspúlsi (p=0,001). Þátttakendum var skipt upp í tvo hópa eftir aldri (32-64 ára og 65-86 ára) og bættu báðir aldurshópar sig svipað í þreki (14,6% og 14,1%) en það var eingöngu eldri hópurinn sem jók hámarkspúls marktækt eða um 7,2% (p=0,007). Þegar þátttakendum var skipt í tvo hópa eftir því hversu oft þeir æfðu á viku kom fram 10,1% aukning á þrektölu hjá hópnum sem æfði sjaldnar en 19,8% hjá þeim sem æfðu oftar (p<0,001). Þátttakendur mátu líkamlega líðan, mælda með spurningalista um lífsgæði, betri við lok þjálfunar (p=0,003) en ekki andlega líðan (p=0,314). Þegar þátttakendum var skipt í tvo hópa eftir því hvernig þeir mátu líkamlega líðan í upphafi rannsóknar varð marktæk hækkun um 15,1% á líkamlegri líðan hjá þeim sem mátu sig í verri stöðu í upphafi (p=0,002), en hinn hópurinn hækkaði um 1,2%.

Ályktun: Hjartaendurhæfing bætir þrek og líkamlega vellíðan. Magn þjálfunar hefur áhrif á bætingu í þreki.

URLhttp://www.laeknabladid.is/tolublod/2015/11/nr/5638
DOI10.17992/lbl.2015.11.50
Short TitleLBL
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is