Félagstengsl íslenskra barna og ungmenna

TitillFélagstengsl íslenskra barna og ungmenna
Form útgáfuReport
Útgáfuár2020
HöfundarÁrsæll Már Arnarsson, Sigrún Daníelsdóttir, Rafn Magnús Jónsson
InstitutionEmbætti landlæknis
BorgReykjavík
Lykilorðfélagsfesti, Félagsleg samskipti, félagsleg tengsl, samskipti foreldra og barna
Útdráttur

Flest börn og unglingar á Íslandi búa við góðar aðstæður og gott atlæti. Rannsóknir hafa sýnt að flest þeirra eiga í góðum samskiptum við foreldra sína, líður vel í skólanum og eiga góða vini. Í þessari skýrslu verður sjónum hins vegar beint að þeim börnum og unglingum sem hafa ekki nógu góð tengsl við foreldra, skóla eða vini. Til þess að greina aðstæður og líðan þeirra var notast við gögn frá stórri alþjóðlegri rannsókn sem nefnist Heilsa og lífskjör skólanema (Health and Behavior of School-Aged Children – HBSC) og er lögð fyrir á fjögurra ára fresti í rúmlega 40 löndum í Evrópu og Norður-Ameríku. Ísland hefur tekið þátt í rannsókninni frá árinu 2006 og var síðasta fyrirlögn veturinn 2018. Þessi skýrsla hefur eftirfarandi markmið:

  • Að meta hversu hátt hlutfall barna og unglinga býr við slök tengsl við foreldra, skóla og/eða vini
  • Að lýsa einkennum þessara hópa með tilliti til bakgrunnsþátta, eins og kyns, aldurs og efnahagsstöðu, og kanna sambandið á milli félagstengsla barna og ungmenna og hegðunar þeirra, líðanar og lífsánægju
  • Að skoða hvort góð tengsl á einu sviði (t.d. við vini) geti unnið gegn áhrifum slakra tengsla á öðru (t.d. við foreldra), en einnig hvort slök tengsl á fleiri en einu sviði tengist enn frekari skaða á heilsu og líðan barna og unglinga.

Gæði félagstengsla voru metin út frá níu spurningum, þar sem ein sneri að foreldrum, fjórar að skólanum og fjórar að vinum. Í skýrslunni var börnum og unglingum, sem metin voru með slök félagstengsl skipt í þrjá hópa:

  • Þau sem hafa slök tengsl á einu sviði (við foreldra, skóla eða vini)
  • Þau sem hafa slök tengsl á tveimur sviðum (við foreldra og skóla, foreldra og vini eða skóla og vini)
  • Þau sem hafa slök tengsl á öllum þremur sviðum (við foreldra, skóla og vini)

Þessir þrír hópar voru bornir saman við fjórða hópinn, sem er samansettur af þeim sem höfðu góð félagstengsl á öllum sviðum.

Niðurstöður sýndu að um helmingur barna og unglinga telst hafa góð tengsl á öllum þremur sviðum. Tengslin voru best á meðal yngri barna, en sífellt fleiri mátu tengsl sín slök við ýmist foreldra, vini eða skóla eftir vaxandi aldri hópanna. Flest ungmenni sem á annað borð höfðu einhver slök tengsl, höfðu þau aðeins á einu sviði og þá oftast við vini. Afar sjaldgæft var að börn og unglingar upplifðu slök tengsl á öllum sviðum (3%). Sé miðað við þann fjölda sem stundar nám í 6.-10. bekk grunnskóla hverju sinni, sem voru tæplega 23.000 árið 2019 samkvæmt tölum Hagstofu Íslands, má gera ráð fyrir að tæplega 700 börn og unglingar í þessum aldurshópi búi við slök tengsl á öllum sviðum. Þessi ungmenni eru verulega illa stödd hvað varðar félagslega stöðu, heilsu, líðan og framtíðarhorfur. Því er mikilvægt að finna þau og aðstoða.

Rúmlega 80% ungmenna áttu í góðum samskiptum við foreldra sína, þar af sögðust 54% eiga mjög auðveld samskipti við foreldra sína og 28% auðveld. Tæpur fimmtungur (18%) sagðist aftur á móti eiga erfið samskipti við foreldra sína. Tíðni erfiðra samskipta við foreldra var hærri á meðal eldri en yngri ungmenna eða 12% í 6. bekk, 16% í 8. bekk og 26% í 10. bekk. Stelpur voru helmingi líklegri (21%) til að greina frá erfiðum samskiptum við foreldra sína en strákar (14%). Tíðnin var þó langhæst á meðal þeirra sem skilgreindu kyn sitt sem „annað“ eða 34%.

Þegar tengsl barna og unglinga við skóla voru metin, kom í ljós að í 52% tilfella töldust þau mjög góð, góð hjá 26% hópsins en slök hjá 22%. Slök tengsl við skóla voru algengari hjá eldri ungmennum og sást mesta breytingin á milli 6. og 8. bekkjar. Á meðal 6. bekkinga töldust 13% hafa slök tengsl við skóla en í 8. bekk var hlutfallið komið upp í 24%. Á meðal 10. bekkinga var það 27%. Munurinn á milli tengsla stráka og stelpna við skóla var ekki mikill, en ungmenni sem skilgreindu kyn sitt sem „annað“ voru mun líklegri til að upplifa þessi tengsl sem slök eða um helmingur.

Þegar tengsl barna og unglinga við vini voru skoðuð, kom í ljós að í 40% tilfella töldust þau mjög góð og góð í 34%. Rúmur fjórðungur (27%) reyndist hafa slök tengsl við vini. Alls töldust 30% stráka og 22% stelpna eiga slök tengsl við vini, en það sama átti við um 49% þeirra sem skilgreindu kyn sitt sem „annað“. Slök tengsl við vini voru algengari á meðal eldri en yngri ungmenna, en hlutfallið var 23% í 6. bekk, 28% í 8. bekk og 29% í 10. bekk.

Við aðhvarfsgreiningu kom í ljós að samskipti við foreldra höfðu mest áhrif á líðan, en tengsl við skóla mest áhrif á áhættuhegðun. Þau sem höfðu góð tengsl við foreldra voru mun ólíklegri til að greina frá sállíkamlegum einkennum (s.s. höfuðverk, depurð, kvíða og svefnerfiðleikum), einmanaleika og skorti á lífsánægju. Sterk tengsl við skóla drógu mjög úr líkum þess að hafa prófað rafrettur, sígarettur, áfengi og kannabis, sem og að hafa lent í slagsmálum sl. 12 mánuði. Bæði tengsl við foreldra og skóla höfðu þó áhrif á alla þessa þætti. Tengsl við vini höfðu vissulega áhrif á líðan, en mun minni en áhrif foreldra og athygli vekur að tengsl við vini höfðu engin marktæk áhrif á áhættuhegðun. Tengsl við vini höfðu hins vegar mest áhrif þegar kom að einelti, en þau sem áttu sterk vinatengsl voru mun ólíklegri til þess að hafa orðið fyrir eða lagt aðra í einelti.

Efnahagsstaða foreldra, samkvæmt mati ungmenna, hafði mikil áhrif á tengsl á öllum sviðum. Mun hærra hlutfall barna og unglinga, sem upplifðu fjárhagslega stöðu fjölskyldu sinnar góða, sagðist eiga í góðum samskiptum við foreldra sína og vera í sterkum tengslum við bæði skóla og vini. Þau ungmenni sem sögðust búa við mjög slæman fjárhag höfðu öll einhver slök tengsl og þriðjungur til helmingur þeirra hafði öll tengsl slök. Þó ber að túlka þessar tölur með þeim fyrirvara að mjög fáir einstaklingar eru að baki þessum tölum. Engu að síður draga þessar niðurstöður fram mikilvægan ójöfnuð til heilsu og vellíðanar á meðal barna og ungmenna, sem gefa þarf nánari gaum.

Á heildina sýndu niðurstöður að eftir því sem félagstengsl ungmenna voru slök á fleiri sviðum, þeim mun neikvæðari áhrif hafði það á heilsu þeirra og líðan. Þau sem höfðu ein slök félagstengsl voru mun betur stödd en þau sem höfðu slök tengsl á tveimur sviðum og þau sem voru með slök tengsl á öllum sviðum höfðu mun lakari útkomu en þau sem höfðu tvenn slök tengsl. Þau sem höfðu öll tengsl slök voru langtum líklegust til að vera einmana, hafa sállíkamleg einkenni, lenda í slagsmálum, leggja í einelti, vera lögð í einelti, drekka áfengi og reykja. Undantekningar frá þessu eru rafrettunotkun og kannabisneysla, en í þeim efnum virðast tveir síðarnefndu hóparnir álíka illa staddir. Þetta mætti túlka á þann veg að þótt ungmenni séu með slök tengsl á tveimur sviðum, þá réttir það hlut þeirra nokkuð á flestum mælingum ef tengslin eru að minnsta kosti góð á einu sviði. Þar virðast tengslin við foreldra skipta langmestu máli.

URLhttp://menntavisindastofnun.hi.is/sites/menntavisindastofnun.hi.is/files/felagstengsl_barna_og_ungmenna.pdf
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is