Fræðileg skrif - birtingar

Val á tímariti
Vanda þarf valið á tímaritum til birtinga. Áhrifastuðull (e. impact factor) tímarits er talinn ákveðinn mælikvarði á gæði en hann getur verið reiknaður út frá mismunandi forsendum, höfundum, greinum eða ákveðnum tímaritum.

•    Í InCites Journal Citation Reports er hægt að fletta upp áhrifastuðli vísindatímarita sem
     skráð eru í Web of Science.
•    Í Scopus má fletta upp áhrifastuðlum ritrýndra tímarita á ýmsum efnissviðum. Scopus er
     opið á Háskólanetinu.
•    ERIH (European Reference Index for the Humanities) listar viðurkennd tímarit í
     hugvísindum.
 

Einnig má nefna að:

•    Fjallað er um áhrifastuðla á vef Landsbókasafns.
•    Bókasafn HR listar ritrýnd íslensk tímarit.
•    Google Scholar Metrics listar tímarit eftir h-index. Þar er hægt að skoða ákveðin
     efnissvið eins og menntavísindi.
•    DOAJ (Directory of Open Access Journals) listar viðurkennd tímarit í opnum aðgangi.

 

Það hefur alltaf þurft að sýna varkárni við val á tímaritum til birtinga greina en með aukinni útgáfu í opnum aðgangi hefur það orðið enn mikilvægara.  Á vefnum Think.Check.Submit er farið yfir ýmis atriði sem hafa þarf í huga.

Opinn aðgangur og Opin vísindi

Háskóli Íslands samþykkti stefnu um opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum og lokaverkefnum 6. febrúar 2014 og tók hún gildi 1. september 2015. Auk lokaverkefna, nær stefnan til greina í ritrýndum tímaritum en ekki til bóka eða bókarkafla.

Starfsmenn Háskóla Íslands eru hvattir til að skrá verk sín í Opin vísindi sem er rafrænt varðveislusafn íslensku háskólanna fyrir vísindagreinar. Safnið er OpenAIRE / OpenAIREplus samhæft og samrýmist kröfum sem gerðar eru um birtingu rannsóknaniðurstaðna úr verkefnum sem styrkt eru úr evrópsku rannsóknaáætlununum FP7 og H2020. Mikilvægt er að kanna stefnu einstakra tímarita varðandi vistun í varðveislusöfnum áður en greinar eru settar þar inn. SHERPA/RoMEO veitir upplýsingar um útgáfustefnu einstakra tímarita og útgefenda. Nánari leiðbeiningar um skil í Opin vísindi.

Upplýsingafræðingar bókasafnsins geta aðstoðað við skil og þeir sjá um endanlegan frágang greina fyrir útgáfu í Opnum vísindum.

Hér má finna nánari upplýsingar um opinn aðgang.

ORCID aukenni
ORCID auðkenni er nokkurs konar kennitala til að tengja saman mismunandi nafnmyndir höfunda og aðgreina fræðimenn með sama nafni. Háskóli Íslands hefur gerst aðili að ORCID og hvetur starfsmenn til að hafa ORCID auðkenni og tengja það við Háskólann. Með slíkri tengingu verður ritaskrá uppfærð sjálfkrafa í starfsmannaskrá á ytri og innri vef. Hægt er að skrá sig í ORCID og virkja tenginguna við Háskóla Íslands í gegnum Uglu. Leiðbeiningar um ORCID er að finna í Uglu og á vef Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafns.

Höfundarréttarleyfi
Til að greiða fyrir útgáfu í opnum aðgangi er mælt með notkun Creative Commons (CC) afnotaleyfa. CC gerir höfundum kleift, með einfaldri staðlaðri leið, að skilgreina afnotaleyfi sem veita notendum rétt til að afrita, dreifa verkum og breyta, endurbæta og byggja ofan á, allt innan ramma höfundaréttarlaga.

Heimildaskráningarforrit
Landsmenn hafa aðgang að heimildaskráningarforritinu EndNote í gegnum landsaðgang að Web of Science. Háskóli Íslands veitir nemendum og starfsfólki skólans að auki, aðgang að EndNote (desktop útgáfu). Bókasafn Menntavísindasviðs býður reglulega upp á námskeið í notkun EndNote. Einnig má panta leiðsögn hjá Margréti, margudm [hjá] hi.is.

ISBN númer
Bókasafn Menntavísindasviðs úthlutar ISBN númerum til starfsmanna sviðsins. Hægt er að sækja um ISBN númer til Gunnhildar, gunnh [hjá] hi.is.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is