Nemendur

Image
boka radgjof

Nemendur

 

Nemendur - ólíkur hópur - ólíkar þarfir

Bókasafn Menntavísindasviðs er opið öllum nemendum Háskóla Íslands. Bókakostur og þjónusta er sniðin að þörfum nemenda Menntavísindasviðs en innan þess sviðs eru meðal annarra íþrótta- og heilsufræði, tómstunda- og félagsmálafræði, uppeldis- og menntunarfræði og þroskaþjálfafræði auk kennslufræði.

Nemendahópurinn er margbreytilegur með ólíkan bakgrunn og þarfir. Sumir koma inn í námið með reynslu af öðru námi á meðan aðrir koma inn eftir langt námshlé. Starfsmenn safnsins leitast við að koma til móts við þarfir nemenda á þeirra forsendum. Boðið er upp á námskeið í heimildaleit og notkun upplýsinga, samstarf er við kennara sviðsins um kynningar á þjónustu bókasafnsins, upplýsingaleit og öðrum mikilvægum þáttum í inngangsnámskeiðum. Auk þess geta nemendur óskað eftir hjálp bókasafnsfræðinga við upplýsingaleit á safninu og í gagnasöfnum á netinu.

 

Fjarnemar utan höfuðborgarsvæðisins geta óskað eftir að fá bækur sendar til sín sér að kostnaðarlausu. Þeir sjá svo sjálfir um að skila bókunum eða senda til baka á eigin kostnað. Beiðnir um útlán þarf að senda á menntavisindasafn@hi.is. Fullt nafn, kennitala og heimilisfang verður að fylgja með. 
Lánstíma bóka má framlengja með því að skrá sig inn á leitir.is, senda beiðni á menntavisindasafn@hi.is eða hringja í síma 525 5930. Athugið að notendanafnið er kennitalan og lykilorð fæst með því að hafa samband við afgreiðslu.

Fjarnemum er einnig bent á að kynna sér þá þjónustu sem er í boði í heimabyggð, á bókasöfnum, hjá fræðslunetum og símenntunarstöðvum. Fjarnemar eiga að snúa sér beint til bókasafns Menntavísindasviðs. Bókasöfn í heimabyggð eiga ekki að hafa milligöngu um lán frá okkur. 

Stór hluti af rafrænum safnkosti er keyptur í landsaðgangi og aðgengilegur á öllum tölvum með íslenskt IP-númer. Rafrænt efni sem bókasafnið og Háskóli Íslands kaupa er einungis aðgengilegt á neti HÍ en með VPN tengingu er hægt að tengjast því hvar sem er. Leiðbeiningar um hvernig má tengjast háskólanetinu eru hér.

Upplýsingafræðingur er á vakt frá kl. 9:00 til 15:00 virka daga. Fyrirspurnir um heimildaleitir á leitir.is eða í öðrum gagnasöfnum og heimildaskráningu skal senda á menntavisindasafn@hi.is eða hringja í síma 525 5930. Lögð er áhersla á að veita öllum nemendum Menntavísindasviðs kennslu í upplýsingalæsi í upphafi náms. Fjarnemum er sérstaklega bent á að fylgjast með og sækja kynningar um heimildaleitir og heimildaskráningu sem haldnar eru í staðlotum. Námskeið og kynningar eru auglýstar á vef safnsins og Facebook síðu.

Bókasafn Menntavísindasviðs heldur utan um skil nemenda á lokaverkefnum í Skemmuna. Leiðarvísir um skil í Skemmuna er hér. Nemendur geta fengið aðstoð á bókasafninu við skilin og er bent á að hafa samband við Önnu Kristínu í síma 5255932 eða annakri@hi.is ef upp koma vandamál. 

Bókasafnið hefur tekið saman leiðarvísa fyrir nemendur sem eru sérsniðnir að hverri námsbraut. Leiðarvísarnir innihalda hagnýtar upplýsingar um það efni sem er gagnlegt fyrir hverja námsbraut og listar til dæmis upp helstu bækur, rafbækur, tímarit, gagnasöfn og handbækur sem til eru á safninu innan hvers fræðasviðs.