Doktorsnemar

Image
kennarar

Doktorsnemar

Bókasafn Menntavísindasviðs sinnir margþættri þjónustu við doktorsnema sviðsins.  Ýmsar aðrar hagnýtar upplýsingar fyrir doktorsnema á Menntavísindasviði má finna hér.

Þjónusta við doktorsnema

Bókasafn Menntavísindasviðs er sérhæft safn á sviði uppeldis, kennslu, umönnunar og þjálfunar. Við bendum sérstaklega á gott safn handbóka á þessum sviðum, auk þess er boðið upp á aðgang að rafrænu efni, tímaritum og gagnasöfnum, rafrænum bókum og skýrslum. Aðgangur að rafrænu efni er þrenns konar:

  • Opinn aðgangur (open access) – efnið er öllum opið á vefnum, án gjaldtöku
  • Landsaðgangur – efnið er opið á öllum tölvum með íslenska IP-tölu
  • Háskólanetið – ýmiss konar efni sem keypt er í séráskriftum og er einungis opið á tölvum tengdum Háskólanetinu eða með aðgangi í gegnum VPN tengingu utan Háskólasvæðisins. Nánari leiðbeiningar um tengingar við Háskólanetið eru á vef Upplýsingatæknisviðs HÍ. Leiðbeiningar má einnig finna í Uglunni undir Tölvuþjónusta – VPN.

Efnisval fer fram í samráði við akademíska starfsmenn sviðsins og þá starfsmenn safnsins sem hafa yfirsýn yfir safnkostinn.  Nemendur geta einnig borið fram tillögur að innkaupum og er þá skoðað í hvert sinn hvort ástæða þykir að verða við tiltekinni beiðni. Doktorsnemar geta lagt fram tillögur um kaup á efni í samráði við leiðbeinendur.

Vegna ritakaupa fyrir bókasafn Menntavísindasviðs þarf að fylla út eyðublað um ritakaup. Doktorsnemar þurfa að skrá nafn leiðbeinanda og hann þarf að samþykkja beiðnina.  

Við val á efni skal taka mið af þörfum notenda safnsins, hvað er líklegt til að nýtast vel og sem flestum, hvað er til á viðkomandi efnissviði og hvað vantar, og gæta þess að eðlilegt jafnvægi ríki á milli einstakra námsgreina.

Við bendum einnig á millisafnalán fyrir sérhæft efni sem ólíklegt er að nýtist fleirum. 

Doktorsnemar geta fengið sérsniðin námskeið og kynningar um heilmildaleit og heimildaskráningu. Námskeið og kynningar eru auglýstar á vef safnsins og Facebooksíðu. Einstaklingar og hópar geta einnig pantað einkaleiðsögn. Doktorsnemar geta einnig leitað aðstoðar við heimildaleit til upplýsingafræðings sem er á vakt alla virka daga frá 9 til 15. Ýmsar gagnlegar leiðbeiningar um heimildaleit má finna á vef bókasafnsins.

Bókasafnið býður upp á námskeið í samvinnu við ritver. Námskeiðin fjalla um ýmis gagnleg atriði fyrir ritun, heimildaleitir og heimildaskráningu í EndNote Online.

Efni, bækur eða tímaritsgreinar sem ekki eru til í bókasafninu er hægt að útvega úr öðrum söfnum með millisafnaláni. Fylla þarf út þar til gerða beiðni á leitir.is. Ef panta á efni sem til er á leitir.is þá þarf að notandi að skrá sig inn með notendanafni og lykilorði. Notendanafnið er kennitalan og lykilorðið er fjórir til sex tölustafir sem notendur velja sér. Hafa þarf samband við afgreiðslu safnsins til að virkja lykilorð. Nánari leiðbeiningar varðandi pöntun á millisafnaláni eru hér.

Ef vandkvæði koma upp má hafa samband við mennta-msl@hi.is. Doktorsnemar Menntavísindasviðs þurfa að öllu jöfnu ekki að greiða fyrir millisafnalán. Þó geta verið undantekningar á því ef um er að ræða nýjar dýrar greinar í tímaritum með birtingartöf.

Ljósritun og prentun
Aðstaða er á bókasafninu til að prenta út og ljósrita. Doktorsnemar greiða fyrir slíkt samkvæmt gjaldskrá. Fyrirfram greiddur prentkvóti gildir ekki á bókasafninu. Prentkvótinn gildir á prentara í tölvuveri.

Ritver
Ritver Menntavísindasviðs býður upp aðstoð við fræðileg skrif. Nánari upplýsingar um þjónustu ritvers eru á vef ritvers.

Heimildaskráningarforrit
Landsmenn hafa aðgang að heimildaskráningarforritinu EndNote Online í gegnum landsaðgang að Web of Science. Háskóli Íslands veitir nemendum og starfsfólki skólans að auki, aðgang að EndNote (desktop útgáfu). Bókasafn Menntavísindasviðs býður reglulega upp á námskeið í notkun EndNote Online. Einnig má panta leiðsögn hjá Önnu, annabjarna [hjá] hi.is. Landsbókasafn býður einnig upp á námskeið í notkun EndNote. 

ISBN númer
Bókasafn Menntavísindasviðs úthlutar ISBN númerum. Hægt er að sækja um ISBN númer fyrir doktorsverkefni hjá Gunnhildi, gunnh [hjá] hi.is.
 

Höfundaréttarleyfi
Mælt er með notkun Creative Commons (CC) leyfa sem komið var á til að greiða fyrir opnum aðgangi. CC gerir höfundum kleift, með einfaldri staðlaðri leið, að skilgreina afnotaleyfi sem veita notendum rétt til að afrita, dreifa verkum og breyta, endurbæta og byggja ofan á, allt innan ramma höfundalaga. Nánari upplýsingar um CC eru hér.

Háskóli Íslands samþykkti stefnu um opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum og lokaverkefnum 6. febrúar 2014. Þar er hvatt til birtingar fræðigreina á vettvangi sem er opinn. Ein leið til að birta efni í opnum aðgangi er Opin vísindi sem er stafrænt varðveislusafn fyrir ritrýndar vísindagreinar og efni sem birtist á vegum íslenskra háskóla. Frá 2016 eru doktorsverkefni vistuð þar. Eldri doktorsverkefni eru vistuð í Skemmunni.

 

Fræðimenn eru hvattir til að útvega sér ORCID auðkenni sem er nokkurs konar kennitala til að tengja saman mismunandi nafnmyndir höfunda og aðgreina fræðimenn með sama nafni.  

  
PHD on track er leiðbeiningavefur fyrir doktorsnema sem nokkrir norrænir háskólar hafa sett upp. Þar má finna gagnlegar upplýsingar um heimildir, útgáfu og áhrifastuðul.